149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ágætu ræðu. Ég hef áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á eftirfarandi spurningu. En áður en kemur spurningunni ætla ég að hafa stuttan inngang, aðdraganda.

Orðið hafa mikil tíðindi á Bretlandseyjum. Í gær sagði af sér forsætisráðherra Breta, frú Theresa May, sem hafði það verkefni með höndum að standa fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sem menn þekkja með formerkjunum Brexit. Í ræðu utan við bústað forsætisráðherra við Downingstræti nr. 10 lét hún m.a. svo um mælt að hún væri óglöð yfir því að sér hefði ekki tekist að ljúka þessu ætlunarverki.

Nú munu þess vegna í framhaldinu verða forsætisráðherraskipti í Bretlandi, hvenær sem það nú verður. Talað er um a.m.k. vikur, jafnvel mánuði, í þeim skilningi. En þeir sem rýnt hafa í þá stjórnmálalegu stöðu hafa, a.m.k. sumir hverjir, lýst því áliti að afleiðingin verði sú að það verði hörð lending, stundum kallað hart Brexit, þ.e. útganga án samnings.

Nú er Bretland eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum. Það vekur upp spurningar um viðskiptahagsmuni okkar í framhaldinu. Þeir munu þá dragast saman gagnvart Evrópusambandinu um leið og Bretland fer þaðan út, (Forseti hringir.) vegna þess hversu snar þáttur í okkar utanríkisviðskiptum er við Breta. Hvaða afleiðingar telur hv. þingmaður að þetta hafi?