149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir síðara andsvar hans. Þessi spurning er mjög djúp og vel ígrunduð, eins og von var frá hv. þm. dr. Ólafi Ísleifssyni. Hér eru enn ein rökin sem hníga að því að við ættum að fara okkur hægt og taka til skoðunar öll þessi gríðarlega stóru og veigamiklu atriði þar sem vafi leikur á hvort við séum að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar.

Auðvitað skiptir þetta máli. Ef markaðurinn minnkar sem nemur Bretlandsmarkaði, við það að Bretlandseyjar ganga út úr þessu samstarfi, er eftir minna að slægjast innan Evrópubandalagsins. Ég myndi halda að það myndi veikja samningsstöðu Evrópubandalagsins gagnvart okkur, ef við erum að tala um að lögmál markaðarins virki eins og þau eiga að gera. Það er alveg klárt mál að það er enn ein ástæðan fyrir því að hér ætti að gera hlé á umræðunni og gaumgæfa vel hvort við séum á réttri leið með að reyna að berja þetta í gegn, í orðanna fyllstu merkingu, með þeim aðferðum sem hér er beitt. Ég held að okkur væri sæmst að gera það.

Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir að benda á þetta. En þetta er akkúrat nokkuð sem er að gerast bara núna á meðan við stöndum í þessari umræðu. Hefðum við lokið henni viku fyrr, þá hefðum við ekki haft þessar upplýsingar.