149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í þessari ræðu minni víkja að markaðsmálunum sem mönnum hefur orðið tíðrætt hér um, og markaðsvæðingu raforkukerfisins. En fyrst er rétt að horfa aðeins á fyrirkomulagið í dag.

Í dag höfum við raforkukerfi sem byggt er upp á samfélagslegum forsendum og er í eigu allra landsmanna, með einni undantekningu þó. Það er fyrirtækið HS Orka á Suðurnesjum sem er núna í einkaeigu og var að fullu selt einkaaðilum árið 2009, sem ég hef kallað ein stærstu pólitísku mistök sem gerð hafa verið á Íslandi. Það fyrirtæki var í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og starfaði á samfélagslegum forsendum. Það var mikið þrekvirki að byggja þetta fyrirtæki upp á sínum tíma og þyngra en tárum tekur, herra forseti, að þetta fyrirtæki skyldi selt úr höndum almennings. Almenningur var aldrei spurður í því máli.

Það er eins og með þetta mál. Almenningur hefur ekkert verið spurður að því hvort hann sé tilbúinn að samþykkja að innleiða þennan orkupakka sem hafa mun áhrif á á komandi kynslóðir þegar að því kemur. Það er staðreynd sem menn hafa allt of lítið horft á.

Sagt hefur verið að þetta hafi engin áhrif. Við þurfum ekki hafa neinar áhyggjur af þessu, það sé enginn sæstrengur. En sæstrengurinn kemur og það er styttra í hann en marga grunar. Þá verður ekki aftur snúið. Þá á að fara að skoða einhvern stjórnskipulegan fyrirvara o.s.frv. Það er bara verið að fresta málinu og, eins og fram kom í umræðum í nótt, verða þeir sem tóku þessa afdrifaríku ákvörðun að innleiða þessa tilskipun ekki lengur hér við völd, væntanlega, a.m.k. ekki í ríkisstjórn. Ég held að það sé nokkuð ljóst.

Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti að ætla að keyra svona mál í gegn á svona skömmum tíma, án fullnægjandi umræðu og í mikilli andstöðu við þjóðina. Það er bara þannig. Þetta er í mikilli andstöðu við þjóðina. Verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfingin hafa ályktað um að það sé feigðarflan að fara út í að tengjast þessu markaðssvæði. Við erum að hverfa frá þeim samfélagslegu forsendum sem legið hafa á bak við raforkukerfi okkar og þá auðlind sem er í eigu allra landsmanna. Það er það sem þetta snýst um. Verið er að hverfa frá hinum samfélagslega þætti sem er svo mikilvægur.

Það var þrekvirki á sínum tíma að leggja rafmagn á alla bæi. Það var samfélagslegt verkefni. Nú snýst allt um sem mesta arðsemi hjá einkaaðilum. Það er ekki tilviljun að einkafyrirtæki vilji komast inn í þennan geira, eins og gerðist með hitaveitu Suðurnesja. Það er bara vegna þess að menn sáu tækifæri til að hámarka gróða, ávaxta fé sitt sem allra best. Samfélagslegi þátturinn var aukaatriði. Það hefur sýnt sig suður með sjó, t.d. í því að fyrirtækið hefur ekki viljað leggja hitaveitu inn á þessi svokölluðu köldu svæði sem þar eru, vegna þess að það þjónar ekki hagsmunum þeirra; ef fyrirtækið hefði verið á samfélagslegum grunni enn þá (Forseti hringir.) væri komin hitaveita á þessi svæði.

Það var nú margt fleira sem ég ætlaði að segja, herra forseti. Ég var bara rétt byrjaður að fara inn á þessa braut og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.