149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni ræðuna. Það voru ummæli í ræðu hans sem kveiktu hjá mér áhuga á að taka þátt í umræðu við hann undir formerkjum andsvara og svara. Hann nefndi og fjallaði um afstöðu ýmissa mikilvægra hagsmunasamtaka, t.d. verkalýðshreyfingarinnar, til þessa máls. Við þekkjum að ASÍ hefur skilað inn umsögn og leggst gegn samþykkt þessarar þingsályktunartillögu. Það hafa áhrifamiklir verkalýðsforingjar fjallað um málið. Til að mynda nefni ég Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR. Síðast í gær tók hann eindregna afstöðu gegn málinu. Sömuleiðis nefndi hv. þingmaður að málið væri í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar.

Það er mjög áleitin spurning, herra forseti, með hvaða hætti menn geta gengið fram í málum af þessu tagi, hafandi ekki leitað eftir eða aflað sér lýðræðislegs umboðs.

Þriðji orkupakkinn var ekki til umræðu fyrir síðustu kosningar. Það var enginn stjórnmálaflokkur sem boðaði að hann myndi standa að þingmáli sem leiddi það af sér að erlendir aðilar, erlendar stofnanir, fengju ítök í orkuauðlindir landsmanna, eins og þeir hafa lýst, Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Menn eru umboðslausir í þessum efnum.