149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, umboðslausir. Ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og það er kjarninn í málinu. Verið er að taka ákvörðun sem almenningur átti að fá að vita af áður en ráðist var í þessa vegferð og spurður hvort hann væri yfir höfuð sammála því að fara þessa leið.

Ég nefndi áðan Hitaveitu Suðurnesja sem var seld árið 2009. Íbúar á Suðurnesjum voru aldrei spurðir að því, aldrei. Og það sem meira er, það var hreinlega sagt ósatt. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, sem þá voru Sjálfstæðismenn í meiri hluta, sögðu að það stæði ekki til að selja hitaveituna, sögðu það bara blákalt. Almenningur þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því.

Annað kom á daginn. Fyrirtækið var allt saman selt eins og það lagði sig til erlendra aðila.

Þegar okkur er sagt hér að þetta komi ekki til með að hafa nein áhrif, sett verði lög sem tryggi að ekki verði lagður sæstrengur þannig að við tengjumst ekkert þessu sameiginlega markaðsvæði og ákvæði í innleiðingunni komi ekki til með að virkjast vegna þess að enginn sæstrengur sé. Eigum við að trúa þessu? Eigum við að taka þetta trúanlegt? Er þetta ekki bara alveg eins og með Hitaveitu Suðurnesja, þegar almenningi var sagt að hún yrði ekki seld, en svo var hún seld?

Verður það ekki nákvæmlega eins með þetta mál? Verða ekki þessi lög bara afnumin fljótlega eftir að þau verða sett, innan kannski tíu ára þegar virkilegur þrýstingur kemur á að lagður verði sæstrengur? Verða þá lögin ekki bara afnumin?