149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns og myndin sem hann dró upp af örlögum Hitaveitu Suðurnesja, sem einu sinni var, ætti að verða okkur, get ég sagt, víti til varnaðar í þessu máli. Það sem við höfum fært fram í þessari umræðu er m.a. það að hætta sé á að ef við tökum upp þessa Evrópugerð eigum við á hættu að missa tök á orkuframleiðslu okkar.

Árið 2009, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, voru erfiðir tímar í landinu og á þeim tíma hef ég grun um að almannafyrirtæki, eins og lífeyrissjóðir, hafi verið hvött til að taka þátt í kaupum á Hitaveitu Suðurnesja sem þá hét. En það gerðu þau ekki, sem varð til þess að fyrirtækið rataði í eigu útlendinga, sem á þeim tíu árum sem liðin eru hafa, ef ég man rétt, margfaldað það sem þeir lögðu í þetta fyrirtæki.

Og á þessum tíma, þ.e. einhverjum mánuðum eftir að þetta fyrirtæki var selt í hendur útlendinga, þá loks keyptu íslenskir lífeyrissjóðir í fyrirtækinu, nokkrum mánuðum seinna, af útlendingunum sem þegar höfðu keypt, og skapaði það þeim þá þegar allmikinn arð af fjárfestingu sinni. Ég held einmitt að þessi saga, hv. þingmaður, ætti að vera okkur leiðarljós núna. En ég verð að koma betur inn á það í næsta andsvari.