149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það væri óskandi að við myndum læra af þessu öllu saman. Mig minnir að þegar fyrirtækið var selt 2009, ef ég fer rétt með þessar tölur, hafi það verið selt fyrir um 12 milljarða. Nú tíu árum síðar er fyrirtækið metið á 72 milljarða. Það er býsna góð ávöxtun, herra forseti.

Auk þess var fyrirtækið HS Veitur selt af Sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ. Þeir gátu ekki selt allt fyrirtækið vegna þess að lögum samkvæmt er það ekki heimilt. Fyrirtæki af þessu tagi þarf að vera að um 51% hlut í eigu sveitarfélaganna. Þá skilaði fyrirtækið 400 millj. kr. árlega í arð til sveitarfélaganna. Þetta fyrirtæki var selt á 2 milljarða þannig að það tók nú ekki kaupendur nema fimm ár að fá fyrir kaupverðinu.

Maður spyr sig: Hver er hugmyndafræðin þarna á bak við? Hvernig dettur stjórnmálamönnum í hug, að selja svona fyrirtæki sem er í samfélagseigu, skilar góðum arði og hefur þetta samfélagslega hlutverk, sem er svo mikilvægt? Að færa það einkaaðilum sem hverfa algjörlega frá þessu samfélagslega hlutverki, það er algjört aukaatriði. Nú verður það bara arðsemin sem skiptir öllu máli, að hámarka gróðann. Þá skiptir samfélagslegi þátturinn engu máli.

Maður spyr sig, herra forseti: Hvað eru stjórnmálamenn að hugsa sem framkvæma svona? Sporin hræða og við gætum lent í þessu sama eftir innleiðinguna á þriðja orkupakkanum.