149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna ekki er hægt að segja hvað fundur á að standa lengi. Það er eins og það sé einhver leyndarhyggja á bak við það. Ég skil ekki svona vinnubrögð. Þetta er þvílíkt skipulagsleysi að það er með ólíkindum, auk þess sem búið er að segja hér margoft að unnið sé að því að gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað. Telur hæstv. forseti að það sé fjölskylduvæn stefna að funda hér í 18 klukkutíma?

Ég hef fengið símtöl í morgun frá fjölskyldu minni um hvort ég ætli að koma í útivistarferð í dag með henni. Ég þarf að sinna fjölskyldu minni, það er komin helgi og ekkert óeðlilegt við það. Þetta á að vera fjölskylduvænn vinnustaður, en það er ekki að sjá. Ég hvet þig, herra forseti, til að svara því bara (Forseti hringir.) hreint út hvað þessi fundur á að standa lengi.