149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eitt af lykilorðum 21. aldar, þriðja árþúsundsins, er gagnsæi, upplýsing, og að minni hyggju á þar ekki við nein leyndarhyggja eða pukur. Ég leyfi mér í ljósi þessa að ítreka ósk mína og annarra hv. þingmanna sem hér hafa talað fyrir því að skýrt og skilmerkilega verði greint frá því hver séu áform forseta varðandi tímalengd þessa fundar. Eins og nokkrir hv. þingmenn hafa getið um minnast Sjálfstæðismenn þess að í dag eru liðin 90 ár frá stofnun flokksins. Hún gerðist hér á Alþingi með samruna tveggja flokka. Einstaklingar, eins og hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, gegna mjög háum ábyrgðarstöðum innan flokksins og verður að vænta að þeir séu mjög uppteknir við afmælishald en þeir gætu þurft að vera þátttakendur í þessari umræðu, (Forseti hringir.) líka til að svara spurningum. Þannig að ég óska eftir því að tekið verði tillit til þessa afmælisfagnaðar Sjálfstæðismanna við ákvörðun um fundartíma.