149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Á meðan á þessum góðu umræðum um fundarstjórn forseta stóð náði fundurinn 18 klukkutíma lengd, sem er í sjálfu sér kannski ekkert sérstakt keppikefli. Ég veit ekki hvort forseti þingsins og sitjandi forseti eru í einhverju kappi um það hvor getur stjórnað lengri fundi. Það er ekki sérstaklega til eftirbreytni.

Ég óska viðstöddum Sjálfstæðismönnum til hamingju með daginn og vil benda forseta á að eftir stuttan tíma hefst afmælisfögnuður þess flokks þar sem mörgum þingmönnum hefur verið boðin þátttaka. Þeir geta náttúrlega ekki tekið þátt í þeirri hátíð ef hér stendur yfir fundur og þeim aldagamla flokki er í sjálfu sér lítill sómi sýndur með því að halda hér þingfund meðan hátíð hans stendur.

Ég vil einnig benda á að hingað kom í nokkra tíma í gær hæstv. utanríkisráðherra. Ég tel að hans hlutverki (Forseti hringir.) hér á fundinum hafi ekki verið lokið þannig að það gæti alveg verið að við myndum óska nálægðar hans aftur ásamt fjármálaráðherra. Þá getum við náttúrlega ekki ætlast til að þeir komi hér til fundar meðan þeir eru að fagna 90 ára afmæli flokks síns. Því hlýt ég að spyrja hæstv. forseta hversu lengi hann hyggist halda fundarhaldi áfram.