149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn bendir á að í áliti Stefáns Más og Friðriks Árna sé fjallað um þennan verulega vafa, og að hann standist stjórnarskrá. Maður veltir fyrir sér hvort það geti talist ábyrgt af þingmönnum að taka þann séns með stjórnarskrána að þessi verulegi vafi detti réttum megin.

Þá hljótum við að spyrja annarrar spurningar: Hvernig í ósköpunum geta menn réttlætt fyrir sér að fresta úrskurðinum um hvorum megin vafinn lendir? Hvaða gagn er í því að fresta? Það kemur nákvæmlega upp sú sama spurning og sama staða þegar — ég ætla að segja þegar — kemur að því að því þurfi að svara. Þá hafa fylgjendur málsins ekki lagt sig fram við að svara því hvort hinn svokallaði fjórða orkupakki hafi einhver áhrif á það hvernig menn svara þessari spurningu, vafamálinu um lagalega fyrirvarann.

Það má alveg búast við að þegar kemur að því að svara þeirri spurningu hvort vafi leiki á eða hvort fyrirvarinn standist í rauninni, komi upp aðrar svipaðar spurningar með þennan fjórða orkupakka sem bíður.

Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því?

Í öðru lagi: Hvaða skilning leggur hv. þingmaður í það ef fyrirvarinn er nægur í nefndaráliti atvinnuveganefndar? Hefur sá fyrirvari eitthvert gildi, líkt og kveðið væri á um hann í lögum?