149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni ræðu hæstv. utanríkisráðherra, sem ég er búinn að biðja um að reynt verði að hraða að prenta upp ef það eru einhver möguleiki. Ég hef hins vegar skilning á því að starfsmenn Alþingis þurfi að sinna öðrum málum.

Mig langar að velta upp við þingmanninn spurningu sem ég held að sé býsna mikilvæg. Gangi þetta mál í gegn í sumar, eða hvernig sem það verður, erum við að innleiða ákveðnar tilskipanir sem eru hluti af þessum þriðja orkupakka. Við erum að taka skref í átt að frekari innleiðingum í fjórða orkupakkanum. Því er eðlilegt að spyrja, fyrir þá sem hafa ekki eins miklar áhyggjur af þessu og við: Er hægt að hætta við? Þekkir þingmaðurinn dæmi um það að okkur geti snúist hugur þegar við köfum ofan í fjórða orkupakkann og sagt: Heyrðu, við ætlum ekki að innleiða 713 og 714? Þetta voru mistök hjá okkur?