149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að það yrði mjög erfitt að hverfa frá einstökum gjörðum sem hafa verið leiddar inn í landsrétt. Það væri þá kannski bara ein leið í því efni, að segja sig úr þessum félagsskap. En það er eitthvað sem við höfum engan áhuga á að gera. Við álítum, ég held allir sem höfum valist til að skipa þingflokk Miðflokksins, að mikill árangur hafi orðið af samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið og að við höfum af því ávinning. Ég hlakka mjög til að sjá þá skýrslu sem er í undirbúningi um kosti og galla EES-samstarfsins, sem ég beitti mér reyndar fyrir og hafði stuðning held ég alls þingflokks Miðflokksins til að gera, og fleiri þingmanna. En slíkar spurningar í þessum efnum eru mjög áleitnar og það er svolítið sérkennilegt að við þeim skuli engin svör fást.