149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Já, það var ókunnugleikabragur, þótti mér, í máli hæstv. ráðherra þegar kom að þessari álitsgerð tvímenninganna. En eitt af því sem þeir taka fyrir er svigrúm Alþingis þegar kemur að því að meta hvort ákvarðanir eða ákvæði samrýmist stjórnarskránni.

Ég vísaði til álitsgerðar þeirra um þetta efni þar sem þeir brýna í raun og sanni fyrir alþingismönnum að stíga varlega til jarðar í þessum efnum, eins og öllum má vera ljóst að er skylda þeirra, hafandi, eins og hv. þingmaður gat um, unnið eið að stjórnarskránni. En það atriði er áréttað í álitsgerð þeirra með mjög skýrum hætti.