149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðu hans sem var athyglisverð. Ég ætlaði að spyrja hann nánar um umgengni við íslensku stjórnarskrána.

Hann ræddi um framsal valds til alþjóðlegra stofnana, sem er þá hugsanlega ESA eða ACER, eftir atvikum, og að þessar stofnanir, önnur hvor eða báðar, hafi þannig áhrif á skipulag og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar, ef ég hef tekið rétt eftir orðum hv. þingmanns. Þetta væri samkvæmt áliti lögfræðilegra ráðgjafa ríkisstjórnarinnar sjálfrar, sem hafi sagt að þrátt fyrir að valdið sé þannig formlega hjá ESA, þ.e. hið alþjóðlega vald, sem eigi hugsanlega við hér á Íslandi eftir innleiðinguna, sé formlega hjá ESA, sé ljóst að ACER muni hafa mikið að segja um efni ákvarðana sem ESA tekur á grundvelli reglugerðarinnar, enda semur ACER drög að ákvörðunum og leggur þau fyrir ESA.

Er hv. þingmaður með þessu að segja að það sé í raun ACER sem fái þetta vald sem fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem við leitumst við að halda í heiðri?

Og fyrst við tölum um umgengni við stjórnarskrána er þessu allt öðruvísi háttað í mörgum öðrum löndum, eins og t.d. í Noregi. Þegar um framsal valds er að ræða, hugsanlega, er áskilinn í öðrum þjóðþingum aukinn meiri hluti fyrir samþykki á slíku valdframsali. Hér á landi er ekki um neitt slíkt að ræða.

Þá spyr ég hv. þingmann: Þegar orkutilskipun Evrópusambandsins sem við hér ræðum (Forseti hringir.) var innleidd í Noregi, var málsmeðferð fyrir norska Stórþinginu með þeim hætti að óskað hafi verið eftir auknum meiri hluta?