149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og höfundarnir tveir leggja málið upp er hugsanlegur árekstur við stjórnarskrána einkum og ekki síst falinn í 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009. Þeir leggja út af því með hvaða hætti það gerist að í krafti þessara greina, þessara reglugerða, sem öðlast lagagildi á Íslandi, verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt, muni þessar erlendu stofnanir fá ítök sem er lýst með þeim hætti sem ég gat um nokkrum sinnum áður, a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Þarna er innsti kjarni vandans, þ.e. sá lagalegi fyrirvari sem á að leysa úr því. Hann hefur ekki enn fundist og engin álitsgerð liggur fyrir um hugsanlegt þjóðréttarlegt gildi slíks fyrirvara. Í raun og veru er þetta mál í fullkominni upplausn.

Þetta er lögfræðilegur óskapnaður. Málið er í upplausn. Það eru fjölmargir þættir í þessu máli órannsakaðir. Það er algerlega óljóst hvernig þriðji og fjórði orkupakkinn muni teflast saman. Sá fjórði er tilbúinn. Í Noregi eru miklar áhyggjur af því að valdheimildir þessarar orkustofnunar Evrópu, ACER, muni smátt og smátt fara vaxandi með þeim vandamálum sem af því hljótast. Höfundarnir tveir gera svo sannarlega ekki lítið úr því hversu veik staða Eftirlitsstofnunar Evrópu, sem er stofnun sem við Íslendingar eigum aðild að, er gagnvart þessari evrópsku orkustofnun, ACER, sem við eigum enga aðild að nema sem áheyrnarfulltrúar. (Forseti hringir.) Þarna er auðvitað mikill vandi uppi.