149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

eákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er a.m.k. í mínum huga enginn vafi á því að höfundar álitsgerðarinnar sem mest er vitnað til, lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar, telja, og skýra það mjög rækilega í sinni álitsgerð, að gengið sé allfast nærri stjórnarskránni, verði orkupakkinn innleiddur með þessum hætti.

Þegar ég leyfði mér að nota orðin lögfræðilegur óskapnaður áðan var ég að sjálfsögðu að vísa til þess að með því að samþykkja þingsályktunartillöguna stofnum við til þjóðréttarlegrar skuldbindingar um að innleiða þær gerðir sem fylgja þessum pakka, þar á meðal hina umdeildu reglugerð 713. Það er einkum í henni sem eru ákvæði sem leiða af sér að erlendir aðilar fá þessi ítök. Að verið sé að framselja vald til erlendra stofnana umfram það sem álykta má að sé heimilt samkvæmt stjórnarskránni.