149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann, sem hér flutti góða ræðu, nánar út í það sem hann ræddi, og jafnvel forsöguna. Okkur hefur verið tjáð af þeim þingmönnum sem hér sátu, t.d. þegar orkupakki tvö var staðfestur og samþykktur á þinginu — orkupakki tvö er hugsanlega lykillinn að þeim ógöngum sem við höfum ratað í út af skiptingu orkufyrirtækja upp í framleiðslu- og dreifingarhluta. Einn hv. fyrrverandi þingmaður hefur orðað það þannig að þegar orkupakki tvö var á dagskrá í þinginu hafi hann runnið í gegn, þingmenn allir verið sem sofandi og ekki áttað sig á alvöru þess að samþykkja þann pakka.

Þess vegna langar mig til að segja við hv. þingmann og spyrja hann út í það líka: Ég held að það geti enginn sagt að þingheimur hafi verið sofandi í þetta sinn, núna við afgreiðslu orkupakka þrjú, alla vega ekki hluti þingheims.

Mig langar vegna þessa að spyrja hv. þingmann varðandi orkupakka þrjú, sem við munum væntanlega samþykkja, þingheimur eða hluti hans, hvort það sé ráð að undirbúa hann enn betur áður en hann kemur til atkvæða, þ.e. að víkja málinu til hliðar, fresta afgreiðslu þess, jafnvel fram á haust. Vegna þess að þar eru hlutir í gangi sem ég fer kannski betur yfir í seinna andsvari.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji, í ljósi sögunnar — og vil ég biðja hann um að fara aðeins yfir hana — að við eigum að flýta okkur hægt við að samþykkja þennan hluta.