149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Auðvelda svarið við þessari spurningu er já. Við eigum að sjálfsögðu að fara okkur hægt og við eigum að læra af sögunni og reynslunni.

Þegar orkupakki tvö var til umræðu á þinginu var enginn af okkur þingmaður sem nú erum í þingsal. En ég man hins vegar eftir því sem virkur þátttakandi í allt öðrum flokki á þeim tíma, að við mótmæltum því harðlega að þessi leið skyldi farin. Að þáverandi ráðherra skyldi fara með þetta mál með þeim hætti sem gert var svo hratt í gegnum þingið. Því var mótmælt innan flokksins.

Ég skil ekki, herra forseti, að menn skuli ekki vilja læra af sögunni. Við sem nú sitjum á þingi höfum ákveðið forskot. Staða okkar er betri en þeirra sem sátu á þingi þegar orkupakki tvö var innleiddur, því að nú getum við vitað, krufið og rannsakað hvað framtíðin ber í skauti sér. Það þarf enga kristalskúlu, það þarf ekki að spá í spil. Það þarf bara að fá umfjöllun, rannsókn og mat á orkupakka fjögur.

Varðandi orkupakka tvö hafa menn aðeins verið að koma inn á það hér og skautað létt yfir sannleikann í því öllu saman. En í þeim pakka er farið að minnast á áætlanir orkufyrirtækja, kerfisáætlun, sem hæstv. ráðherra þá taldi nauðsynlega, ekki síst út af svokallaðri jarðstrengsskýrslu, að innleiða eða setja í lög reglur um kerfisáætlun, þrátt fyrir, og það tók ráðuneytið skýrt fram, að það snerist ekkert um orkupakka þrjú heldur bara það að fylgja eftir orkupakka tvö og því sem þar var á ferðinni.

En nú getum við séð hvað er fram undan. Hvers vegna önum við þá svona áfram? Hvað er á bak við þetta? Það hefur enginn getað sagt okkur hvað (Forseti hringir.) í ósköpunum okkur liggur á og vilja ekki skoða það sem við getum séð.