149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar, fyrir svar við andsvari, vegna þess að hann kom einmitt inn á góðan punkt, að við eigum auðvitað að læra af reynslunni. Það er ekki nóg með, eins og hv. þingmaður sagði, að nú getum við krafist meiri svara um framtíðina áður en við samþykkjum eitthvað meira. Ofan í kaupið vil ég halda því fram, og spyr hv. þingmann um álit hans á því, að við getum lært af þeirri reynslu sem við höfum, af því að orkupakki eitt og tvö eru búnir að vera í gildi í líklega 15 og 10 ár hvor, ef ég man rétt. Við eigum náttúrlega að læra af þeirri reynslu sem þessi tímalengd hefur fært okkur.

Það hefur margkomið fram í þessari umræðu en enginn hefur verið til svara um hvort hægt sé að gera það. Ég nefni sérstaklega að dr. Ólafur Ísleifsson, hv. þingmaður, hefur kallað eftir því að gera skuli hagfræðilega úttekt á afleiðingum þess að samþykkja orkupakka þrjú. Það er mjög gildur punktur vegna þess að auðvitað þurfum við að vita hvað sú veisla kostar að taka þennan pakka inn. En það vill svo illa til, eins og við vitum öll, að hryggjarstykkið í því að innleiða þennan orkupakka er þingsályktunartillaga, og þingsályktunartillögur eru ekki kostnaðarmetnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé nauðsynlegt að fara fram á að hagfræðileg úttekt verði gerð og að kostnaðarmat liggi fyrir um mögulegan kostnað heimila, (Forseti hringir.) fyrirtækja o.s.frv. áður en við samþykkjum orkupakkann, ef til stendur að samþykkja hann.