149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Að mínu viti ER fullt tilefni til að slíkt mat fari fram. Ekki bara hagfræðilegt mat eða kostnaðarmat. Það þarf líka að kafa ofan í það hvað þessi pakki þýðir fyrir stjórnarskrána.

Hvað er í orkupakka fjögur varðandi valdaframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar? Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr áliti Samtaka iðnaðarins við orkupakka þrjú. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að gefnu tilefni benda SI að til umfjöllunar á vettvangi ESB er nú þegar fjórði orkupakkinn, þ.e. svokallaður „vetrarpakki …“

Og svo segir, og ég bið herra forseta að hlusta vel núna:

„… þar sem liggur undir enn víðtækara regluverk en samkvæmt fyrstu orkupökkunum …“

Samtök iðnaðarins segja okkur þarna að orkupakki fjögur innihaldi enn þá flóknara eða viðameira regluverk en orkupakki þrjú. Og svo tala fylgjendur þessa máls hér — þeir tala reyndar ekki neitt því að þeir taka ekki þátt í umræðunni, neita að koma hingað upp og segja okkur hvort þeir séu búnir að fá kynningu á orkupakka fjögur, hvort við þurfum áhyggjur að hafa af honum. Hvort þetta víðtækara regluverk sem Samtök iðnaðarins benda á, sé léttvægt, hafi engin áhrif á stjórnarskrá, feli ekki í sér valdaframsal, feli ekki í sér kostnaðarauka, feli ekki í sér einhvers konar álag á hagkerfið, feli ekki í sér álag á ríkisorkufyrirtækin, einkafyrirtæki, breyti réttindum einstaklinga eða lögaðila til að höfða mál eða eitthvað slíkt. Því er öllu ósvarað.

En við vitum þó frá Samtökum iðnaðarins að þetta er mun víðtækara regluverk.