149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á í ræðu sinni að nú lægi orkupakki fjögur fyrir, þó að hann hefði ekki komið til kynningar hjá okkur í þinginu. Telur þingmaðurinn, miðað við þá lýsingu sem hann hefur af innihaldi pakkans og þeirri ítarlegu reglusetningu sem þar virðist fyrir mælt, að með einhverjum hætti sé forsvaranlegt fyrir okkur núna — sérstaklega í ljósi þess að þær upplýsingar liggja fyrir að það er ekkert sem hastar hvað samþykkt orkupakka þrjú varðar, það verður enginn skaði af því að fresta samþykkt hans fram á haustþingið — að klára innleiðingu orkupakka þrjú án þess að fara í ígrundaða skoðun á því hvað felst í orkupakka fjögur, ef þingið virðist nálgast mál þannig að við séum bara á færibandinu og fáar athugasemdir færðar fram?

Rökin fyrir innleiðingu orkupakka þrjú eru m.a. þau hvað við höfum staðið okkur vel með innleiðingu orkupakka tvö, sem eru náttúrlega ótrúleg rök. Verði það raunin er alveg augljóst að fátt verður um varnir gagnvart orkupakka fjögur.

Telur þingmaðurinn forsvaranlegt, í ljósi alls þessa, að innleiðing orkupakka þrjú verði kláruð áður en almennileg greining og kynning á efni orkupakka fjögur hefur farið fram?