149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

fjórði orkupakkinn og sæstrengur.

[15:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er enginn skortur á stórtíðindum sem tengjast þriðja orkupakkanum. Nú er búið að afgreiða fjórða orkupakkann innan Evrópusambandsins. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er ekki eðlilegt að við ræðum þennan fjórða orkupakka í samhengi við umræðu um þann þriðja, sérstaklega í ljósi þess að færð hafa verið fram þau rök af hálfu stjórnvalda fyrir innleiðingu þess þriðja að hann sé eðlilegt framhald af fyrsta og öðrum orkupakkanum og því sem á undan hefur komið? Það vekur satt að segja nokkra furðu að Alþingi skuli ekki enn hafa fengið kynningu á þessum fjórða orkupakka á meðan einhverjir aðilar úti í bæ, samtök eða einstaklingar, hafa fengið slíka kynningu.

Fleiri stórtíðindi bætast við. Í gær birti breska blaðið Sunday Times umfjöllun um að nú væri mjög þrýst á bresk stjórnvöld að samþykkja tengingu landsins við Ísland með sæstreng. Fram kom að verkefnið væri fullfjármagnað af 25 fjárfestum og myndi skapa mörg hundruð störf á Norðaustur-Englandi. Það leiðir hugann að ýmsu sem rætt hefur verið í tengslum við þriðja orkupakkann og má vísa í margnefnt álit Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, en þar segir m.a., með tilliti til sæstrengs, með leyfi forseta:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Er ekki hæstv. forsætisráðherra tilbúin að taka undir það með mér að mikilvægt sé að skoða þessi atriði og raunar fleiri áður en lengra er haldið með þriðja orkupakkanum?