149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

utanspítalaþjónusta.

[15:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lengi haft það að markmiði að koma á öflugri utanspítalaþjónustu. Grein í Mannlífi nú á dögunum vakti athygli mína en þar kemur í ljós að íbúar í Borgarfirði eystra hafa kallað eftir samstarfi um viðbragðsþjónustu utan spítala þar sem óöryggi þeirra hvað varðar heilbrigðisþjónustu sé algjört þegar alvarleg tilvik koma upp.

Dæmi er tekið af manni sem slasaðist ekki alls fyrir löngu. Úrræðaleysið var algjört og það var ekki einu sinni til deyfing fyrir hann. Maðurinn var náttúrlega fylltur af koníaki, og það er kannski ágætt fyrir einhverja en ekki alla, til að hægt væri að deyfa hann. Það var til láns að læknir var á staðnum sem hafði samt ekki aðgang að einu eða neinu til að annast þessa þjónustu. Hann saumaði viðkomandi saman með nál og sverum þræði sem ég kann ekki að segja meira frá. Það tekur rúman klukkutíma fyrir sjúkrabíl að koma frá Egilsstöðum. Úrræðaleysið í þessu litla þorpi var algjört og íbúarnir búa við mikið óöryggi.

Ég hafði haldið, en það er misskilningur hjá mér, að við værum að reyna að byggja upp þannig samfélag að fólki væri ekki mismunað í heilbrigðiskerfinu eftir búsetu. En það er alveg greinilegt að svo er. Ég hef ítrekað kallað eftir skýringu á því að sjúkrabíll fái ekki að vera í Ólafsfirði. Nú virðist sú stefna vera í gildi að sjúkrabílar eru teknir af litlum stöðum hvar sem er á landinu og eftir sitja íbúar í algjörri óvissu og óöryggi.

Það er vilji til að koma á heildstæðri utanspítalaþjónustu en það á að taka eitt eða tvö ár að koma henni almennilega á koppinn. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að vera með einhvern öryggisventil á meðan verið er að bíða eftir þeim frábæru úrræðum sem boðuð hafa verið.