149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þessi grein í sunnudagstímanum breska, sem hv. þingmaður vísar í, er býsna sláandi. Að vísu var þekkt fyrir að þetta fyrirtæki hefði áhuga á tengingu. Gott ef ég hitti ekki einhvern tímann fulltrúa þess í minni tíð í forsætisráðuneytinu, reyndar fyrir milligöngu manna úr öðrum flokki. Ég upplýsti þessa menn þá um það að ekki væri ríkur pólitískur vilji á Íslandi fyrir lagningu sæstrengs og að við sæjum á því ýmsa ágalla.

Hins vegar fór ekki á milli mála að þessir menn sóttu mjög stíft að af slíkri tengingu yrði. Í ljósi þess og þessara nýjustu frétta, sem draga það fram hversu miklir hagsmunir eru þarna undir, hlýtur maður að velta fyrir sér — og mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því — hvort ekki megi einfaldlega gera ráð fyrir, eða a.m.k. telja líklegt, að slíkir aðilar myndu nota öll þau úrræði sem þeir teldu sig hafa. Ef við værum búin að innleiða þennan þriðja orkupakka myndu þeir þar af leiðandi láta reyna á það hvort Íslendingar ætluðu að framfylgja markmiðum orkupakkans með því að stuðla að tengingum yfir landamæri og tengingu svokallaðra einangraðra svæða við evrópska raforkumarkaðinn. Mér finnst það blasa við og þá er ekki hægt annað en að líta til ábendinga sem við höfum fengið, eins og hv. þingmaður nefndi, um að það gæti kallað á skaðabætur og jafnvel umtalsvert háar skaðabætur ef við féllumst ekki á að ryðja úr vegi hindrunum fyrir slíkri sæstrengslagningu eins og þriðji orkupakkinn mælir í raun fyrir um.