149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að maður verði að ætla það að fyrirtæki sem, ef sú yrði raunin, hefur burði til að koma sér upp 400 milljörðum, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar, til að leggja sæstreng ætti að vera tiltölulega léttur leikur að efna til þess lögfræðilega kostnaður sem fylgir því að láta reyna á sína stöðu. Ekki er annað að sjá af orðum þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna en að talið sé að staðan í slíku máli væri giska vænleg. Það bara gersamlega blasir við.

Hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækisins, les ég hér, með leyfi forseta, þar að lútandi um að leggja sæstreng „gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi“. Við gjörþekkjum þessa stöðu. Hún liggur fyrir í nýlegri reynslu í kjötmálinu.

Hvaða fjárhagslega áhætta er það sem hér er verið að leggja út í? Þetta mál er þannig vaxið að það verður að skoða þá stöðu sem þarna er lýst miklu nánar, möguleikann á samningsbrotamáli gagnvart okkur að kröfu einkafyrirtækis. Það er ekki hægt að halda því fram, leyfi ég mér að segja, að málið sé að fullu upplýst fyrr en búið er að fara rækilega yfir þennan þátt málsins.