149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Stuðningsmenn málsins hafa margir hverjir reynt að halda því fram að við færum með fleipur, án þess þó að útskýra í hverju það felst. Eitt af því sem menn hafa nefnt er að sæstrengur sé ekki á teikniborðinu og ekki væntanlegur. Nú sjáum við að það er augljóslega ekki rétt. Við sjáum að þarna er fjárhagslega mjög öflugt fyrirtæki sem þrýstir á um að bresk stjórnvöld klári að veita heimild til að af þessu geti orðið. Þar af leiðandi finnst mér augljóst að slíkt fyrirtæki myndi láta reyna á samningsbrotamál. Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá, vitandi það, að færa slíku fyrirtæki vopn í hendur?

Hæstv. forsætisráðherra svaraði fyrirspurn um þetta mál áðan á þann veg að Alþingi myndi alltaf þurfa að samþykkja lagningu sæstrengs en þá liggur beinast við að setja það í samhengi við mál, sem hv. þingmaður nefndi reyndar áðan, kjötmálið svokallaða. Hver er staðan á því? Liggur ekki einmitt fyrir Alþingi tillaga um að Alþingi fallist á kröfur Evrópusambandsins, eða ESA, í því máli, þrátt fyrir að við höfum talið okkur hafa undanþágu í slíku máli? En þrátt fyrir það kemur ríkisstjórnin með málið í þingið og kynnir það á þeim forsendum að við hefðum verið dæmd til þess að greiða svo miklar skaðabætur að við verðum bara að klára þetta. Við verðum bara að fallast á túlkun ESA.

Hvernig ætli staðan yrði með sæstreng, þar sem skaðabæturnar gætu orðið auðvitað margfalt hærri en í áðurnefndu kjötmáli? Má ekki vænta þess að ef sama ríkisstjórn sæti kæmi hún bara upp og útskýrði fyrir okkur að það væri búið að dæma okkur og við þyrftum bara að klára sæstrengslögnina?