149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég ætti tíkall fyrir hvert skipti sem þeir sem mæla með þessu máli hafa komið hér og/eða verið annars staðar á opinberum vettvangi og sagt: Það er ekkert nýtt í þessu máli, það er allt komið fram, ætti ég myndarlegan eftirlaunasjóð. Það eru nefnilega alltaf að koma fram nýjar upplýsingar í þessu máli. Það sem nú er komið í ljós er að sæstrengur sé tilbúinn, fullfjármagnaður af engum smálöxum heldur stórlöxum í alþjóðlegum fjárfestingum. Ef við höfum það í huga að hér hafa sótt um vindmyllugarða mjög öflug erlend fyrirtæki held ég að það þurfi verulegan barnaskap til þess að fá ekki út fjóra þegar maður leggur saman þessa tvo og tvo.

Þess vegna verð ég að segja að þar sem þetta eru mjög veigamiklar upplýsingar að mínu mati renna þær stoðum undir það sem við Miðflokksfólkið höfum verið að tala um allan tímann, að hér séu mál miklu lengra gengin en okkur hefur verið sagt. Er þá ekki kominn tími fyrir þó nokkru síðan til að leggja þetta mál til hliðar, a.m.k. til hausts, og fara betur yfir það, fara yfir nýjustu upplýsingar sem við fáum inn nánast á hverjum degi?

Við fengum í sjálfu sér nýja punkta inn í umræðuna alla síðustu viku á hverjum degi, punkta sem við vorum að ræða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum þyki ekki fullkomin ástæða til þess núna að stjórnvöld fresti þessu máli til hausts, dragi það til baka svo hægt sé að halda hér áfram umræðu um mörg mikilvæg mál sem bíða.