149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með honum að það eru full efni og ríkar ástæður til þess að ríkisstjórnin fresti þessu máli, a.m.k. fram á haustið.

Ef þetta mál, þetta stóra mál sem nú er komið upp, að sæstrengurinn gæti þess vegna verið í augsýn — hann er á teikniborðinu, amerískur stórbanki vinnur nú að fjármögnun hans og segist vera með eina 25 fjárfesta og þarna liggja fyrir mikilvægar tæknilegar forsendur um hvernig staðið verði að málum til að lágmarka orkutap á þessari löngu leið. Bara þetta, líka í ljósi þeirrar ábendingar sem vitnað er til í álitsgerð tvímenninganna, um að slíkt samningsbrotamál, eins og þeir orða það, gæti reynst Íslandi erfitt. Þeir eru nánast að segja, herra forseti, að menn skyldu gera ráð fyrir því fyrir fram að tapa slíku máli.

Ef þetta nægir ekki var í síðustu viku, meðan þessari umræðu vatt fram á Alþingi, verið að ganga frá fjórða orkupakkanum á vettvangi Evrópusambandsins. Hann er núna tilbúinn og hefur fengið nafn, er kallaður vetrarpakkinn. Og síðan liggur það fyrir og er komin dagsetning á að tíðinda sé að vænta frá stjórnlagadómstóli í Noregi þar sem fjallað verður um mögulegan árekstur orkupakkans við norsku stjórnarskrána. Ef það nægir ekki til að fresta þessu máli, hvað þá?

Ég ætla að leyfa mér að snúa því við og segja: Það er fullkomlega ábyrgðarlaust að ætla sér að samþykkja þetta mál í ljósi allrar þessarar óvissu. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem rekur á eftir því að afgreiða þetta mál hér og nú.