149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þessi þrjú atriði, nýju tíðindin frá London í morgun: Frágangur á vettvangi Evrópusambandsins á fjórða orkupakkanum — fullnaðarfrágangur eftir því sem fréttir herma — fréttir af stjórnlagadómstólnum í Noregi sem ætlar að fjalla um þriðja orkupakkann í samhengi við stjórnarskrána þar í landi — í mínum huga kallar þetta a.m.k. á frestun, ef ekki æpir á frestun. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvað skýri það að svona fast er ýtt á eftir þessu máli og væri æskilegt að það væri skýrt betur en gert hefur verið. Maður sér ekki að einhver úrslitastund sé runnin upp í málinu núna í maí 2019.

Ráðherrar í ríkisstjórninni reifuðu aðspurðir í blaðaviðtölum á sínum tíma hvenær þetta mál ætti að koma fram á Alþingi. Þá var haft eftir einhverjum þeirra að það gæti verið á vorþingi 2019 eða haustþingi 2019. Þannig að ég held að það sé í raun og veru fullt tilefni til, og reyndar bara miklu meira en fullt tilefni, herra forseti, það er í raun og sanni brýnt að þessu máli verði frestað.

Ég verð að segja að ég er eilítið undrandi á því að engir þingmenn sjái ástæðu til að ræða málið í ljósi þessara nýju frétta morgunsins. (Forseti hringir.) Ég hefði talið fullt tilefni til.