149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Með tilliti til þessarar umræðu langar mig að spyrja hv. þingmann út í annað sem hefur verið óþægilega áberandi í umræðunni um málið af hálfu stuðningsmanna þess og nú síðast hér áðan þegar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spurði hæstv. forsætisráðherra spurninga áðan. Það er þetta viðhorf að almenningur sem hafi efasemdir um þennan orkupakka sé svo fávís og láti blekkjast af einhverjum rangfærslum, geti í rauninni ekki hugsað rökrétt og þar af leiðandi geti einhverjar fráleitar rangfærslur blekkt fólk. Þetta viðhorf hefur birst dálítið oft finnst mér í stjórnmálaumræðu, ekki bara á Íslandi heldur víða um lönd að undanförnu, nægir að vísa í umræður um Brexit í Bretlandi, þar sem þeir sem töpuðu þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu hafa margir hverjir haldið því fram að það hafi bara gerst vegna þess að almenningur, þeir sem greiddu atkvæði með útgöngu úr Evrópusambandinu, hafi verið svo fávís og verið blekktur með einhverjum rangfærslum sem þessi „fávísi almenningur“ gat ekki séð í gegnum.

Ég sé reyndar að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur sett sig á mælendaskrá, sem er mjög gott, það verður áhugavert að heyra hvað hann hefur meira um þetta að segja. En það sem sló mig var að hæstv. forsætisráðherra skyldi í rauninni taka undir þessa túlkun hans.

En þrátt fyrir það kemur hvorki hæstv. forsætisráðherra né nokkur annar þingmaður stjórnarliðsins hingað upp til að leiðrétta það sem haldið er fram að séu augljósar rangfærslur og séu til þess fallnar að rugla almenning í ríminu. Hvernig má það vera að menn treysti sér ekki til að leiðrétta rangfærslur (Forseti hringir.) telji þeir sig sjá þær?