149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Með örfáum undantekningum var það svo meðan meðmælendur þessa máls tóku þátt í umræðum var aðkoma þeirra rakalaus og hún fjallaði mest um það hvað þeir sem eru að andæfa orkupakkanum séu ómögulegt fólk, þjóðernispopúlistar. Ég veit ekki alveg hvað það þýðir, en mér er sagt að það sé til sérfræðingur í því efni á Íslandi, ég veit ekki hvar hann lærði til þess, en hann virðist vera mjög mikill greinandi í því hverjir séu það hér. Í ágætri grein frá 2016 hafði hann Framsóknarmenn grunaða um það. En síðan skilst mér að sú ábyrgð hafi flust eitthvert annað. Menn voru allir í þessu og að tala niður þau 62% þjóðarinnar sem eru á móti orkupakkanum.

Það kom fram af nokkru yfirlæti meðan menn töluðu í umræðunni, að það væru helst þeir sem hefðu kynnt sér orkupakkann sem væru fylgjandi honum. Og þá spyr maður: Ef það er svo, hvers vegna voru menn þá ekki harðari í því að kynna málið fyrir almenningi? Almenningur á Íslandi er vel upplýst fólk upp til hópa, skynsamt, og ef almenningur skilur ekki þetta mál eða önnur flókin mál sem eru til úrlausnar á Alþingi Íslendinga þá er ekki við almenning að sakast heldur þá sem standa hér og halda ræður um málin.

Ef við, og þegar ég segi við á ég við stjórnmálamenn yfirleitt, getum ekki útskýrt þetta mál fyrir fólki þannig að það skilji vel, þá er ekki við almenning að sakast heldur okkur. Þá höfum (Forseti hringir.) við ekki staðið okkur og í þessu tilfelli stjórnarliðar vegna þess að við erum búin að reyna hér daga og nætur að útskýra málið fyrir almenningi og fengið býsna góð viðbrögð.