149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég búinn að gera lista yfir nokkrar spurningar sem ég mun nú fara yfir í ræðu minni hér á eftir. Það sem mig langar að inna hv. þingmann eftir er að svolítið er fjallað um afstöðu stjórnmálaflokka og sér í lagi ríkisstjórnarflokkana, sem virðast einhvern veginn hafa bitið á þetta agn og einangra sig frá fylgismönnum sínum eða félögum og kjósendum.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í það að í fréttum í dag er sagt frá breskum milljarðamæringi sem vill að Bretar, eða bresk stjórnvöld, gefi sér leyfi til að hefja vinnu við að standa fyrir kappi til Íslands og Ísland verði einhvers konar rafstöð fyrir Bretland. Ef ég man rétt var í sjónvarpsþætti ekki alls fyrir löngu íslenskur sérfræðingur, líklega einhver almannatengill, sem hafði orð á og var að stríða þeim sem væru í málþófi hér á Alþingi og tengja þá við Trump, minnir mig, eða Bannon eða eitthvað slíkt. Það er nú hægt að tengja þá sem vilja ræða alvarleika máls við ýmislegt. En einhvern veginn minnir mig að þessi sami ágæti einstaklingur sé umboðsmaður þessa breska milljarðamærings á Íslandi, eða þessa fyrirtækis hans, sem kallast Atlantic Superconnection. Kannast hv. þingmaður við að þetta fyrirtæki hafi hér sérstaka umboðsmenn sem hafi jafnvel einhvern tímann verið miðstjórnarmenn í Sjálfstæðisflokknum?