149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast við að svo sé. Og í sjálfu sér er enginn leyndarhjúpur yfir þessu, að því er virðist, vegna þess að viðkomandi einstaklingur er skráður á heimasíðu þessa fyrirtækis sem tengiliður og umboðsmaður þess á Íslandi. Það liggur alveg fyrir. Það er svo aftur annað mál hvers vegna af því að að mörgu leyti hafa fjölmiðlar brugðist hlutverki sínu í þessu máli. Það þarf ekki annað en að fara yfir fréttir af þeim umræðum sem farið hafa fram hér síðustu vikur og sjá hvað þykir fréttnæmt. Það þykir fréttnæmt að kl. 3.20 eina nóttina fóru menn í umræður um fundarstjórn forseta til að kanna hvernig málin lægju. Og það þykir fréttnæmast klukkan hvað fundurinn hófst og hvenær honum lauk. En hvað gerðist þarna á milli er ekki fjallað um.

Þarna bregðast fjölmiðlar hlutverki sínu. Þarna er líka um að ræða að ríkisfjölmiðillinn, sem kostar ekki nema 4.000 milljónir af almannafé á ári hverju, tekur gagnrýnislaust við einstaklingum sem tengdir eru t.d. þessu fyrirtæki, sem álitsgjöfum í fréttaþáttum. Maður hlýtur að spyrja: Vita menn ekki betur? Ég myndi giska á það. Eða gera menn það vísvitandi að kalla á tengda aðila til umræðna um þetta stóra mál?

Þetta er svo laust við að vera faglegt að það hálfa væri nóg. En auðvitað hljótum við að gera meiri kröfur til fjölmiðla en þetta, þó að það sé kannski ekki alveg sanngjarnt, (Forseti hringir.) og þá sérstaklega þess fjölmiðils sem almenningur greiðir sjálfur í, nauðugur viljugur.