149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanni svarið. Það er vitanlega stórmerkilegt að helstu umfjöllunarefni úr þessu stóra máli skuli vera mínútur og ræðutímar, hvenær menn tala og slíkt, ekki innihaldið. Það er helst Morgunblaðið sem reynt hefur að kryfja málið með einhverjum hætti til mergjar. Viljinn hefur gert það svolítið líka. Ég man ekki eftir öðrum sem reynt hafa að setja sig inn í málið af einhverri alvöru.

Það sem hv. þingmaður nefndi varðandi þennan sjónvarpsþátt er það einmitt það sem ég hjó eftir, ég fékk upplýsingar um þessi tengsl og þetta var svolítið sérstakt. En það er nú bara þannig að við stýrum þessu ekki og getum ekki ætlast til að fjölmiðlar hætti að keppa við einhverja smelli og vinsældadótarí. Það er hins vegar hægt að ætlast til þess af fjölmiðli sem fær 4.000 milljónir á ári frá skattgreiðendum sem er óþarfi í dag.

En mig langar að spyrja þingmanninn út í orkupakka fjögur. Við sáum það í síðustu viku, ég benti á það í ræðum mínum fyrir helgina, að orkupakki fjögur er kominn í ljós, þó að við vitum að hann sé búinn að vera til skoðunar hjá hagsmunaaðilum í borginni, m.a. búið að fjalla um hann í Noregi og minnst á hann í umsögnum hagsmunaaðila. Er það ekki svolítið sérstakt, hv. þingmaður, að taka ekki heildarmyndina af öllum þessum orkupakka um orkustefnu Evrópusambandsins og velta fyrir sér: Er þetta eitthvað sem passar Íslandi? Er þetta eitthvað sem við ætlum að taka upp og gera að okkar? Hvaða afleiðingar hefur það? Hvað þýðir það? Nú liggur þetta fyrir, í það minnsta með orkupakka fjögur, við vitum ekki hvort þeir verða fimm eða sex eða guð má vita hvað, en orkustefnan liggur hins vegar fyrir eins og hún er samþykkt af Evrópusambandinu í dag.