149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þessir tveir orkupakkar sem þegar hafa verið innleiddir runnu hér í gegn, eins og einn ágætur fyrrverandi hv. þingmaður orðaði það, án mikillar umræðu, og eiginlega án nokkurrar umræðu úti í þjóðfélaginu. Síðan hafa menn komið fram og sagt við hluta þeirra sem nú stendur fyrir því andófi sem hér er að þeir hefðu mátt vita betur. Það getur vel verið. En menn hafa þá lært af því og komið fram samkvæmt því.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni, auðvitað ber okkur að taka þessar vörður saman; orkupakka eitt, tvö, þrjú, fjögur — sá fimmti er nú á teikniborðinu — og sjá hvernig tengingin er. Þegar sá sem hér stendur hóf þátttöku í pólitík, kom á Alþingi árið 2013, var ég hundfúll yfir því hvernig ríkisstjórnin 2008 hafði innleitt orkupakka númer tvö og farið gjörsamlega fram úr villtustu draumum Evrópusambandsins og ýtrustu kröfum þeirra um þessa innleiðingu, sem kristallast síðan í því að Evrópusambandið gengur út frá því sem gefnu að orkupakki þrjú muni renna í gegn athugasemda- og umræðulaust en í óþökk þjóðarinnar. En það eru einhverjir sem spyrna við fótum og malda í móinn og fara ekki fram á annað en að málið verði rannsakað betur, skoðað betur, tekið til hliðar og beðið eftir (Forseti hringir.) stjórnlagadómsúrskurðinum í Noregi, beðið eftir að þessir augljósu ágallar verði gaumgæfðir aðeins betur áður en málið er keyrt í gegn.