149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla í þessari ræðu að fara svolítið yfir stöðu þessa máls um þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins. Hvernig verður sviðsmyndin ef þriðji orkupakkinn verði samþykktur og hingað verður lagður sæstrengur? Hvar stöndum við þá? Mun þessi svokallaði fyrirvari hafa eitthvert gildi? Stutta svarið er nei. Hér verður orkutilskipun Evrópusambandsins gildandi réttur með öllum hennar kostum og göllum. Með þriðja orkupakkanum og þar með ofurvaldi alþjóðastofnana í orkumálum þjóðarinnar þar sem orkumálastofnun Evrópu skrifar upp úrskurði sem ESA, Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, kveður upp og tveggja stoða kerfi EES-samningsins verður sniðgengið þrátt fyrir að við höfum ávallt viljað standa vörð um það kerfi sem horfir til samningsins sjálfs, Evrópska efnahagssvæðisins og sérstöðu EFTA-ríkjanna samkvæmt samningnum. Á þetta hafa lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar bent og varað við. Aukinheldur að þar og þá verður grímulaust farið á svig við íslensku stjórnarskrána eins og hún sé marklaust plagg, vangaveltur um að gengið hafi verið nærri stjórnarskránni áður og því sé í lagi að nú sé það gert enn á ný eru heldur engin rök í þessu máli.

Væntingar stjórnarliða um að stjórnarskránni eigi að breyta í tæka tíð benda til oflætis þar sem það liggur í augum uppi að hvorki ríkisstjórnin né sitjandi Alþingi hafa vald til breytinga á stjórnarskrá samkvæmt auðskildum ákvæðum stjórnarskrárinnar sjálfrar. Að halda því fram að þessi stjórnarskrárhætta sé eitthvað sem unnt sé að fresta, einungis af því að ekki standi til að leggja sæstreng núna, er viðbára sem stenst ekki skoðun og allra síst með gerð haldlausra fyrirvara, sem stjórnarliðar hafa ekki einu sinni á valdi sínu að útskýra fyrir almenningi eða andstæðingum innleiðingarinnar. Og það er alvarlegt mál, herra forseti. Það er alvarlegt mál ef stjórnarliðar hafa það ekki á valdi sínu að útskýra fyrir almenningi hvað felst í þessum svokölluðu fyrirvörum.

Um leið og þjóðréttarlegum fyrirvara er aflétt og innleiðingin á sér stað — og til stendur að gera það nú á þessu þingi — þá standa fáar varnir eftir gagnvart valdi alþjóðlegra stofnana nema fyrirvararnir sem stjórnarliðarnir boða. Innleiðingin gæti þá leitt til þess að fyrirtæki sem fer fram á að leggja hingað sæstreng, og yrði hafnað af íslenskum yfirvöldum, gæti snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Og eins og lögfræðilegu ráðunautar ríkisstjórnarinnar segja getur það gert stöðu Íslands erfiða. Slíkt mál gæti reynst Íslandi erfitt. Og hvað verður þá um stjórnarskrárvandann í slíku máli? Gufar hann upp í millitíðinni eða verður hann í einhvers konar dásvefni? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Málið er að komast í sjálfheldu hér fyrir framan augun á okkur. Skynsamlegast er að nýta okkur þá leið sem vörðuð er, vörðuð í samningnum sjálfum, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem við erum aðilar að. Það er leið í málinu, að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina, skýra út okkar mál og leita eftir undanþágu, undanþágu frá tilteknum ákvæðum þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins, undanþágu sem virðist, herra forseti, af margháttuðum yfirlýsingum sem stjórnarliðar hafa sjálfir ítrekað vísað til, njóta mikils skilnings, bæði meðal háttsettra aðila innan Evrópusambandsins sem og innan EFTA-ríkjanna, Noregs og Liechtensteins.

Ég ætla í næstu ræðu að koma örlítið betur inn á þetta og halda áfram umfjöllun minni, sem er mjög svo áhugaverð, um upprunaábyrgðir í raforku.