149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Hann fjallaði skiljanlega ekki síst um ýmsa lögfræðilega þætti í málinu, mögulegan árekstur við stjórnarskrá og lagalega fyrirvarann sem hann hefur ekki síst haft með höndum að leita að. Það sem maður veltir fyrir sér er eftirfarandi: Hver er staðan sem við værum í, Íslendingar, eftir að Orkustofnun hefði hafnað umsókn erlends aðila, erlends fyrirtækis eins og Atlantic Superconnection, eins og ég held að það heiti, sem gæti þá snúið sér til Eftirlitsstofnunar Evrópu með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi eins og þeir reifa í álitsgerð sinni Friðrik Árni og Stefán Már. Hvert yrði haldið í lagalega fyrirvaranum? Hverjar yrðu varnir Íslands?

Það kom á daginn í kjötmálinu að þrátt fyrir að því væri haldið fram að alger sérstaða væri á Íslandi varðandi sjúkdóma í búfé, lýðheilsumál undir, heilsa fólks og dýra — ekkert dugði. Halda menn að það muni duga í samningsbrotamáli að vísa til einhvers plaggs sem er afrakstur af einhverjum samningum okkar við sjálf okkur? Að þessu vil ég spyrja hv. þingmann.