149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Fyrirvarinn lagalegi, ég hef reyndar ekki lengur tölu á þeim fullyrðingum eða tilgátum sem haldið hefur verið fram um það í hverju hann fælist. Það er allt frá því að það sé enginn slíkur fyrirvari. Það var eiginlega fyrsta svarið, kom fram í máli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Birgis Ármannssonar, 15. maí sl. Og síðan hafa þær komið hver á fætur annarri þessar tilgátur.

Ég er staddur þar í svipinn að mér sýnist að lagalegi fyrirvarinn, a.m.k. í huga iðnaðarráðherra, eigi að vera athugasemd þar sem skotið verður inn í hefðbundna innleiðingarreglugerð texta um að sæstrengur verði ekki lagður nema með samþykki íslenskra stjórnvalda að fengnu samþykki Alþingis, eitthvað á þá leið. En fyrir utan það að þetta er í reglugerð en ekki lögum, fyrir það fyrsta, en í annan stað hvernig þetta á að geta hnekkt þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við höfum axlað þegar við föllum frá stjórnskipulega fyrirvaranum, ef svo óheppilega færi að það yrði niðurstaðan með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, hvernig á lítil athugasemd í reglugerð að hafa þau áhrif að heil reglugerð, sem við munum að hefur lagagildi verandi evrópsk og reglugerð, að geta aftrað (Forseti hringir.) því að hún hafi fulla verkan og þar með að við séum í stórhættu um að tapa (Forseti hringir.) slíku samningsbrotamáli eins og þeir virðast gera ráð fyrir, Friðrik Árni og Stefán Már?