149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er það sem við höfum margoft verið að benda á og kannski hefur þessi ábending orðið sýnu sterkari í dag eftir að fréttir bárust um fyrirhugaðan vilja erlends fyrirtækis til að leggja sæstreng sem var, samkvæmt fréttinni, að fullu fjármagnaður. Þá vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp úr álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, margumtalaðri. Þeir segja:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi.“

Og svo segja þeir:

„Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Þetta er úr álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þeir eru að benda á að fyrirtæki sem myndi vilja leggja sæstreng og yrði hafnað, eins og ríkisstjórnin hefur margoft boðað, að þetta standi ekki til, gæti farið í samningsbrotamál. Hvar erum við þá staddir? Ráðunautarnir, ráðgjafarnir, segja: Við erum í erfiðum málum. Eins og sagt var í Spaugstofunni: Við erum í vondum málum. Við erum í vondum málum eins og með hráa kjötið. Er forsvaranlegt, herra forseti, að ana út í foraðið með opin augun?