149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil hér í þessari ræðu minni koma aðeins inn á þátt fjölmiðla í þessu máli. Það hefur lítillega verið rætt hér og bent á að fjölmiðlar séu ekki að rækja hlutverk sitt nægilega vel í svo stóru og mikilvægu máli sem innleiðing þessa orkupakka er, innleiðing tilskipunar Evrópusambandsins um sameiginlegan orkumarkað sem við Íslendingar erum að verða þátttakendur í verði innleiðingin að veruleika. Við þekkjum að hlutverk fjölmiðla er gríðarlega mikilvægt í lýðræðisríkjum og öllum ber saman um að þeir séu grundvöllur fyrir lýðræðislegri umræðu og veiti stjórnvöldum aðhald. Það er þannig með fjölmiðla að þeim ber einnig skylda til að upplýsa almenning um hin ýmsu mál og rýna dýpra í mál sem skipta máli fyrir samfélagið. Engum blöðum er um það að fletta að öflugir fjölmiðlar eru mikilvægir fyrir lýðræði hvers ríkis og ekki ofsagt, eins og stundum er sagt, að þeir séu fjórða valdið. Ef hlutverk fjölmiðla er að greina frá atburðum og túlka þá er þeim það heimilt. En spurningin er: Er þeim heimilt að gera það hvernig sem er? Svarið er auðvitað: Nei, þeir eiga ávallt að vinna faglega. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að mikilvægi fréttamiðla hafi vaxið á síðustu árum og við sjáum auk þess annan flöt á þessu máli, það eru falsfréttir sem hafa haft veruleg áhrif og eru mikið áhyggjuefni.

En ef við víkjum þá að þessu máli, og hlutverki fjölmiðla í þeim efnum, verð ég að segja, herra forseti, að ég tel að fjölmiðlar á Íslandi hafi ekki staðið sig nægilega vel í því að upplýsa almenning um mikilvægi þessa máls. Ég vil þó taka það fram að mér finnst Morgunblaðið hafa staðið sig ágætlega í þessu þannig að þetta á kannski ekki við alla fjölmiðla, en vissulega þarf að bæta hér úr. Ég held að margir úti í samfélaginu skilji ekki alveg út á hvað málið gengur og myndi sér skoðanir í þá veru að þar sem umfjöllunin hefur verið á herðum Miðflokksins sé það bara einn flokkur sem hafi áhyggjur af þessu. Það hljóti þá að vera eitthvað sem maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af vegna þess að mikill meiri hluti þingmanna sé fylgjandi málinu.

Í Fréttablaðinu í dag finnur fréttakona, sem ég hef nú ágætisálit á og mér finnst oft hafa skrifað ágæta pistla, málflutningi Miðflokksmanna allt til foráttu og kallar hann einkahjal þingmanna Miðflokksins og segir að þeir hafi ekkert nýtt fram að færa. Það er mikill ábyrgðarhluti, herra forseti, af fjölmiðli að setja svona fram, sérstaklega í ljósi þess að umræddur fjölmiðill hefur ekki birt neinar upplýsingar um þetta mál, þ.e. hvað gerist þegar orkupakkinn verður samþykktur, hvernig raforkuverð kemur til með að hækka. Þannig að það eru ýmsar spurningar sem þarf að svara og þá hefði ég talið að sá fjölmiðill hefði átt að birta þær og fara að rannsaka málið (Forseti hringir.) í kjölinn eins og sagt er.

Ég sé, herra forseti, að tíminn er búinn. Ég verð að halda áfram með þessa ræðu (Forseti hringir.) næst og óska eftir að verða settur á mælendaskrá.