149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað gerum við þá kröfu til ríkisfjölmiðils, sem fær verulega fjárhæð á fjárlögum, að hann kafi djúpt ofan í svona mikilvægt mál. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt að það sé gert. Maður spyr sig einmitt að því: Hvernig líta þeir á þessa skyldu sína? Ef þeir sjá ekki tilefni til þess að fara ofan í mál eins og þetta, þá held ég að skerpa þurfi á hlutverki þessarar ríkisstofnunar. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega er það stórmál ef hér er um valdframsal að ræða. Þetta er einmitt algjörlega kjörið verkefni fyrir fjölmiðil að rannsaka alveg ofan í kjölinn.

En það er ekki bara það. Það eru ýmsar fullyrðingar sem stjórnarliðar hafa sett hér fram. Ég nefni sem dæmi eina fullyrðingu sem margoft hefur komið fram, þ.e. að það sé svo mikil neytendavernd í því fólgin að vera á þessu sameiginlega markaðssvæði Evrópu í raforkunni og að það felist svo mikil neytendavernd í orkupakka eitt, tvö og þrjú. Þá á fjölmiðill náttúrlega að spyrja: Í hverju felst sú neytendavernd? Hvaða hag hafa neytendur haft af þessu?

Jú, ef við skoðum málið nánar þá er nánast enginn hagur af því að skipta um orkusala, eins og margoft hefur verið tuggið hér úr ræðustóli af stjórnarliðum sem eru fylgjandi þessu máli, að það sé svo mikilvægt að geta skipt um orkusala. Það kemur í ljós að þetta eru einhverjir aurar sem heimilin geta sparað þannig að það tekur því ekki (Forseti hringir.) að leggja í þá vegferð. Auðvitað á fjölmiðill að kafa ofan í þetta sem dæmi og benda svo á að þetta gagnast ekki neytendum.