149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sérkennilegt að sjá það gerast að sumir fjölmiðlar sem enga efnislega umfjöllun hafa haft um þetta mál, og alls ekki til þess að fjalla um það sem við höfum verið að leggja til málsins, hafa samt sem áður talið sér fært að fella þunga áfellisdóma yfir þeim sem hér hafa leitast við að varpa ljósi á málið og kryfja það til mergjar.

Ég nefndi nokkur stórmál. Ég nefndi mögulegan árekstur við stjórnarskrá, það að erlendir aðilar fái aðstöðu til að hlutast til um skipulag, ráðstöfun og nýtingu íslenskra orkuauðlinda. Það er meðal þess sem höfum rætt. Við höfum líka rætt það að nú liggur fjórði orkupakkinn á borðinu og það er nauðsynlegt að ræða þriðja orkupakkann í samhengi við það hvað er í vændum. Það stefnir í að tekin verði ákvörðun, eða a.m.k. verði fréttir af norska stjórnlagadómstólnum í september. Þaðan gætu borist veigamikil tíðindi sem skipta okkur Íslendinga miklu máli. Og frétt dagsins er sú að erlendur aðili, fyrirtæki bresks fjárfestis, er greinilega með áform um að leggja sæstreng hingað og er búinn að setja sig í stellingar til að fjármagna þau áform, m.a. með atbeina bandarísks stórbanka, JP Morgans, sem margir kannast við. Allt þetta eru veigamikil mál. Ágætir þingmenn annarra flokka, flestra hverra, fást ekki til að taka þátt í þessu og fjölmiðlarnir virðast ekki vilja eða treysta sér til að fjalla mikið um þetta efnislega (Forseti hringir.) með þeirri undantekningu sem Morgunblaðið sýndi í morgun. Ég vona að framhald verði á þeirri umfjöllun.