149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek heils hugar undir með honum. Í morgun birtist sú stórfrétt í þessu máli, eins og hv. þingmaður kom inn á, að breskur auðjöfur segi að öll fjármögnun sé tryggð, að ekkert annað þurfi til en leyfi til að leggja sæstrenginn. Einhvern tímann hefðu þetta þótt stórtíðindi í umræðu sem þessari og tilefni til þess að stjórnarliðar kæmu inn í umræðuna.

Ég minntist í ræðu minni á fréttakonu við Fréttablaðið sem ég hef haft mætur á. Hún segir að Miðflokksmenn hafi ekkert nýtt fram að færa. Þetta er glæný frétt sem birtist í morgun og hún getur hreinlega kúvent allri umræðu. Ávallt hefur verið talað um það í þessu samhengi að sæstrengur sé ekkert á leiðinni, að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, þetta komi ekki til með að skipta neinu máli vegna þess að sæstrengur sé ekkert að verða að veruleika. En svo kemur allt annað fram í fjölmiðlum í morgun, þegar frétt birtist þess efnis að hér sé allt til reiðu.

Við þekkjum það að stjórnarmeirihlutinn getur vaðið með þetta mál í gegn í krafti síns meiri hluta án vandaðrar umræðu um málið og því held ég að það verði nú tiltölulega auðvelt fyrir stjórnvöld og sömu aðila að afnema þessi lög sem banna sæstreng. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það mikið áhyggjuefni að stjórnarliðar skuli ekki einu sinni koma hingað upp og ræða þó þessar nýju fréttir sem hafa borist af þessu máli.