149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég tel fullt tilefni til þess að fara nánar yfir þessa merkilegu frétt sem birtist í breska blaðinu Sunday Times, hvorki meira né minna, í gær og varðar áform um tengingu Íslands og Bretlands um sæstreng. Í ljósi umræðu um umfjöllun fjölmiðla um þessi mál er ánægjulegt að sjá að a.m.k. Viljinn og Morgunblaðið og nú síðast Vísir hafa gert fréttinni ágætisskil. Ég hef ekki náð að sjá frétt um þetta á Ríkisútvarpinu. Hugsanlega hefur hún birst einhvers staðar. Hugsanlega ætlar stofnunin að láta umfjöllun um þetta bíða fram að næsta skemmtiþætti svokölluðum á föstudagskvöldi, svo að vinahópurinn úr Vesturbænum geti hæðst að þessu máli eins og öðrum mikilvægum málum í samfélaginu. En það er þó mikilvægt, þó að eitthvað um þetta hafi komið fram í fjölmiðlum, að við gerum þessu skil í umræðum hér á þinginu. Ég myndi mjög gjarnan vilja að einhverjir talsmenn þessa máls kæmu og svöruðu fyrir það sem kemur fram í þessari grein.

En það er býsna margt áhugavert í þessari frétt Sunday Times sem segir frá fjárfestinum Edi Truell sem er að þrýsta á bresk stjórnvöld um að leyfa tengingu við Ísland. Raunar kemur fram að sá þrýstingur er ekki að byrja núna. Hann er hins vegar að aukast frá því sem var. Og Greg Clark, viðskiptaráðherra Bretlands, er sem sagt beittur þrýstingi af þessum aðilum, þrýstingi um að heimila þessa tengingu. Það kemur fram að öll fjármögnunin sé til staðar og einungis þurfi samþykki breskra stjórnvalda svo að málið geti haldið áfram. Það er áhugavert, herra forseti, að einungis þurfi samþykki breskra stjórnvalda, þá sé búið að ryðja hindrunum úr vegi. Sagt er frá því að mörg hundruð ný störf verði til í norðausturhluta Englands ef af þessum áformum verður og að Greg Clark viðskiptaráðherra þurfi einungis að veita samþykki og þá verði þessi störf til. Þessir fjárfestar hyggjast raunar framleiða kapalinn, sæstrenginn, í sama landshluta, í norðausturhluta Englands, og þar með verði strax til fjöldi starfa og þeim fjölgi svo þegar stungið verður í samband eða tenging næst við Ísland. Þótt ég hafi ekkert á móti fólki í norðausturhluta Englands, síður en svo, og vonist til að áform breskra stjórnvalda um að efla atvinnulíf í norðanverðu Englandi gangi eftir myndi ég frekar vilja að íslensk orka nýttist til atvinnusköpunar í norðausturhluta Íslands en norðausturhluta Englands, og auðvitað, herra forseti, um allt land hér á landi.

Það kemur fram í frétt Sunday Times að þetta fyrirtæki þurfi að fá þá skilgreiningu að það sé að selja aflandsorku til að það geti fengið að selja þá orku á niðurgreiddu verðlagi, þ.e. að bresk stjórnvöld, ef þau veita slíka skilgreiningu, muni greiða niður orkuverðið. Eins og kemur fram síðar í greininni breytir það því ekki að orkuverð mun hækka í Bretlandi vegna kröfu um að orkusalar nýti eða bjóði upp á ákveðið hlutfall af endurnýjanlegri orku. Það eru einir 25 fjárfestar sem munu vera reiðubúnir að taka þátt í þessu verkefni, undir handleiðslu JP Morgans fjárfestingarbankans, tilbúnir að leggja af mörkum 2,5 milljarða sterlingspunda. En Truell þessi, sá sem fer fyrir hópnum, mun vera fyrrverandi ráðgjafi Borisar Johnsons, sem kann að verða næsti forsætisráðherra Bretlands.

Herra forseti. Ég er rétt að byrja þessa yfirferð og bið því forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.