149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Nú hefur verið fjallað um og spáð í streng um töluvert langan tíma. Árið 2015 eða þar um bil var farið í að skoða þetta og síðan voru gerðar skýrslur um raforkuverð, hvernig það myndi breytast á Íslandi. Ég kannast vel við það að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur verið algerlega andsnúinn þessum streng, í það minnsta síðan þá ef ekki fyrr. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort þær upplýsingar sem hafa komið fram undanfarið í tengslum við þriðja orkupakkann hafi einhverju breytt varðandi skoðun þingmannsins á mögulegum sæstreng og þá sérstaklega hvernig orka Íslands verði best nýtt. Í öðru lagi velti ég því upp varðandi þá frétt sem hér kemur fram um að það sé aukinn þrýstingur á að hefja hreinlega verkefni sem miðar að því að leggja sæstreng til Íslands og það eru fjárfestar sem verður að teljast að geti farið í þetta risaverkefni sem eru búnir að lýsa sig fúsa til að setja fjármagn í þetta virðist vera og sá einstaklingur sem um ræðir í fréttinni er klárlega til þess gerður að stýra og framkvæma líkt verkefni. Þá vaknar vitanlega sú spurning hvort við verðum ekki að geta svarað spurningunni um málshöfðun samhliða. Getur það verið að þrátt fyrir þessar fallegu yfirlýsingar þingmanna, þeirra sem vilja innleiða orkupakka þrjú, gæti t.d. þessi ágæti maður, Edi Truell, mögulega höfðað mál gegn íslenska ríkinu standi það í veginum fyrir því að hann sjálfur á sinn kostnað leggi hér streng til að framleiða orku með vindmyllum á Langanesi? Hefur hv. þingmaður fengið svar við því hvort það sé einhver trygging fyrir því að íslenska ríkið tapi ekki mögulega tugmilljarða máli?