149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, ég hef lengi haft efasemdir um lagningu sæstrengs. Ýmsir hafa reynt að halda til haga kostum slíkrar framkvæmdar en þeir hafa þá yfirleitt gert það, hefur mér heyrst, á þeim forsendum að slíkt yrði gert á á íslenskum forsendum en ekki Evrópusambandsins. Ég hef hins vegar ítrekað bent á þá ágalla og þá hættu sem fylgdi sæstrengslagningu og ég held að það sé alveg óhætt að segja frá því, á fundi með fulltrúum þessa fyrirtækis sem fjallað er um í grein Sunday Times og á fundi með forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, þar sem ég féllst á að áhrif sæstrengslagningar yrðu skoðuð en benti um leið á að ég teldi að slíkt yrði til þess fallið að sýna fram á að það hentaði ekki Íslendingum. Þess vegna hefur það í raun verið bráðfyndið þegar sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki hvað síst hafa verið að benda á að ég hafi hitt David Cameron og rætt við hann um sæstreng og reyna að afsaka gjörðir sínar í þriðja orkupakkanum með vísan til þess.

En hvað varðar þennan fjárfesti og hugsanleg áhrif þess ef við innleiddum þriðja orkupakkann og ætluðum svo að meina honum að ráðast í þessa framkvæmd þá nægir að líta til Kýpur, svo að dæmi sé tekið. Það stendur til að tengja Kýpur með sæstreng við sameiginlega evrópska raforkukerfið. Það er gert undir handleiðslu ACER, þessarar sameiginlegu orkustofnunar Evrópu, sem fylgist með því að stjórnvöld í þessum ríkjum sem í hlut eiga þvælist ekki fyrir, setji ekki hindranir fyrir þetta verkefni. Í ljósi þess að þessi aðili er greinilega tilbúinn til þess að beita bresk stjórnvöld verulegum þrýstingi til að fá leyfi þeirra megin getum við rétt ímyndað okkur hvort hann myndi ekki nýta sér þau vopn sem ríkisstjórn Íslands ætlar að færa honum upp í hendur með samþykkt þriðja orkupakkans.