149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og langar aðeins að spyrja hann út í þær fullyrðingar sem hér hafa komið fram, ekki reyndar úr ræðustóli en menn hafa beitt ýmsum hliðaraðferðum til að koma því á kreik að í þessu máli sé ekkert nýtt, það liggi alveg fyrir. Því hefur verið haldið fram af formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að búið sé að velta við hverjum steini, svara öllum spurningum o.s.frv.

Nú ber svo við að við fáum fréttir, í morgun, um að auðkýfingur nokkur í Bretlandi sé með fullfjármagnaðan sæstreng hingað til Íslands og hann sé að leita leyfa hjá breskum yfirvöldum um að leggja þennan streng. Persónulega hefði ég viljað fá formann utanríkismálanefndar hingað í salinn til að segja okkur hvort hún vissi af þessu áður, af því að allt er nú komið fram í málinu, hvort þetta séu engar fréttir fyrir hana vegna þess að þetta eru vissulega fréttir fyrir okkur, og hvort henni fyndist þetta engu breyta þar sem við erum með fyrirvaralausa innleiðingu orkupakkans, eins og málið liti út núna.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé á því að það ætti að kalla hv. formann utanríkismálanefndar hingað inn og hvort ekki væri rétt að við fengjum (Forseti hringir.) meiri fréttir af þessu sæstrengsbrölti, svo maður orði þetta þannig, svona áður en lengra er haldið.