149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég svara spurningunni vek ég athygli hv. þingmanns á því að í þessari grein Sunday Times kemur fram að eina hindrunin sem sé í veginum fyrir því að af þessum áformum verði sé biðin eftir samþykki eða staðfestingu breskra stjórnvalda. Af því má ætla að þeir aðilar líti svo á að í ljósi fyrirhugaðrar innleiðingar þriðja orkupakkans hér á landi, væntanlega, verði engar hindranir hér að finna, enda þá hægt að vísa í markmið orkupakkans um að hrinda úr vegi hindrunum við tengingar milli landa.

En hvað varðar spurninguna um aðkomu hv. formanns utanríkismálanefndar finnst mér það blasa við að hv. formaður hljóti að koma og svara fyrir nýjustu upplýsingar, hvort sem það er fjórði orkupakkinn eða þessi áformaða sæstrengslagning. Ættu að vera hæg heimatökin fyrir hv. þingmann að afla sér upplýsinga um þetta. Hún á það sameiginlegt með talsmanni þessa fyrirtækis hér á landi að vera álitsgjafi í svokölluðum gamanþáttum Ríkisútvarpsins þar sem framlag þeirra til þessarar umræðu hefur helst verið að hæðast að Miðflokksmönnum eða kalla þá illum nöfnum. En það er þá alla vega þráður á milli sem má væntanlega nota fyrir hv. formann utanríkismálanefndar til að afla sér upplýsinga um þetta mál og m.a. þá að svara spurningunni um hversu langt þetta sé komið af hálfu íslenskra stjórnvalda. Því að ekki er annað að lesa úr þessari frétt en að menn telji enga hindrun hérna megin. Einungis sé beðið eftir staðfestingu breskra stjórnvalda.