149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en biðlað til hæstv. forseta að hlutast til um að hv. formaður utanríkismálanefndar mæti til umræðunnar og skýri þetta fyrir okkur. Hugsanlega nægir að gera það í ræðu, ella verðum við e.t.v. að fara sérstaklega fram á slíkt í umræðu um fundarstjórn forseta, því að það getur ekki verið að stjórnarliðið ætli einfaldlega að leiða hjá sér þessar nýju grundvallarstaðreyndir í málinu, annars vegar fjórða orkupakkann, nýbúið að afgreiða hann, ekkert búið að ræða hann hér, engin kynning farið fram af hálfu íslenskra stjórnvalda á honum, og svo þessar nýju fréttir af áformaðri sæstrengslagningu til Íslands. Þetta er auðvitað ekki tæmandi upptalning á því sem við höfum verið að uppgötva, ef svo má segja, á meðan á þessum umræðum hefur staðið.

Hægt væri að fara yfir langan lista af atriðum sem hafa fyrst komið í ljós eftir að síðari umr. um málið hófst og þá sérstaklega eftir að stjórnarliðar létu sig hverfa úr umræðunni, sem er auðvitað afskaplega sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að þetta sama fólk, margt hvert, fullyrðir að hér sé farið með rangt mál um einhverja hluti, verið sé að villa um fyrir almenningi. Ef sú er raunin hlyti þetta fólk að vera tilbúið til að koma hingað upp í eins og eina ræðu á mann kannski til að útlista í hverju þessi villandi málflutningur felst. Ég er dálítið hræddur um að menn óttist þá umræðu, óttist það að vera bent á að því miður séu áhyggjur okkar (Forseti hringir.) á rökum reistar.

(Forseti (BHar): Forseti vill upplýsa að skilaboðum hefur verið komið á framfæri til hv. formanns utanríkismálanefndar.)